Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hafa misst tvö heimili  í hamförunum
Margir horfðu á þegar framtíðarheimili Hrannars og fjölskyldu hans varð hrauninu að bráð og brann í beinni útsendingu.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
fimmtudaginn 18. janúar 2024 kl. 06:07

Hafa misst tvö heimili í hamförunum

„Ég er sannfærður um að við byggjum Grindavík upp á ný,“ segir Hrannar Jón Emilsson.

„Þetta er bara hús sem eyðilagðist, enginn slasaðist svo þetta hefði getað farið miklu verr,“ segir Hrannar Jón Emilsson en hann og fjölskylda hans hafa tapað tveimur húsum í hamförunum að undanförnu. Húsið sem fjölskyldan bjó í við Víkurbraut skemmdist í skjálftunum í lok nóvember og þá átti fjölskyldan nýbyggt hús við Efrahóp sem brann á sunnudag.

Hrannar og fjölskylda voru búin að vera bæði í sumarbústað í Grímsnesi og í íbúð í Garðabæ síðan 10. nóvember og plön fjölskyldunnar voru að flytja inn í hið nýja hús með vorinu þegar Grindvíkingum yrði hleypt aftur til búsetu í bænum. „Við höfum það bara fínt miðað við aðstæður. Ég var á leiðinni austur í sumarbústað þegar það var hringt í mig og mér sagt að önnur sprunga hefði opnast, ansi nálægt mínu húsi. Ég vissi því hvað var í vændum en það liðu einhverjir klukkutímar þar til hraunið náði til hússins, ég var kominn til baka áður en kviknaði í og eftir það var þetta auðvitað búið spil. Mér fannst kannski athyglisverðast hvað tók langan tíma fyrir hraunið að kveikja í húsinu, ég var greinilega að byggja sterkbyggt hús og það var greinilega mjög vel brunavarið. Byggingarefnið er svokölluð CLT-eining, límtré sem er mjög vel brunavarin. Þegar jarðskjálftarnir miklu voru 10. nóvember, kom nákvæmlega ekkert fyrir húsið. Ég var búinn að sparsla og mála, það sá ekkert á neinu svo ég get alla vega verið ánægður með bygginguna og veit hvernig ég vil gera hlutina næst þegar ég byggi.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Nýja húsið var langt komið fyrir nokkrum mánuðum síðan. Fjölskyldan ætlaði að flytja inn í það í vor.

Á meðan Hrannar var að byggja nýja húsið, bjó hann ásamt fjölskyldu sinni í húsi sem amma hans og afi byggðu, Gnúpi á Víkurbraut 30 í Grindavík. Það hús ásamt öllum húsum þaðan til norðurs á Víkurbrautinni eru ónýt því stóra sprungan liggur undir húsunum.

„Nei, það er sjálfsagt rétt hjá þér. Það hafa líklega ekki fleiri Grindvíkingar fengið að upplifa þetta tvennt. Öll húsin á Víkurbrautinni eru ónýt en ég náði að bjarga öllum persónulegu mununum mínum út úr því húsi og sem betur fer vorum við ekki flutt inn í nýja húsið í Efrahópinu. Nágrannar mínir, sem misstu húsin sín, misstu í raun mun meira því allir persónulegir munir og allt innbúið er brunnið til kaldra kola. Ég ætla því ekkert að vorkenna sjálfum mér, við munum einfaldlega byggja nýtt hús þegar það verður hægt í Grindavík,“ sagði Hrannar.

Þrátt fyrir áfallið gerir Hrannar ráð fyrir að fjölskyldan muni áfram vilja búa í Grindavík í framtíðinni. „Ég er það mikill Grindvíkingur og konan mín er héðan líka, því er mjög líklegt myndi ég halda að við munum flytja aftur til Grindavíkur þegar það verður hægt. Við erum samt ekki að hugsa um það núna, við erum nýbúin að lenda í að horfa á framtíðarheimilið okkar brenna og við vitum ekkert hvernig málin munu þróast á næstunni. Áður en þetta gerðist var ég á fullu að klára húsið og okkar plan var að flytja inn í vor. Við vorum fyrstu dagana eftir rýminguna í nóvember í sumarbústað í Grímsnesi, fórum svo í íbúð í Njarðvík en fyrst safnskólarnir eru í Reykjavík ákváðum við að flytja í Garðabæ og getum verið hér eins lengi og við viljum. Varðandi framtíð Grindavíkur sé ég ekkert annað en við byggjum bæinn upp aftur. Við sáum Vestmannaeyjar fara illa í gosinu ‘73, Selfoss og Hveragerði lentu í miklum jarðskjálftum um aldamótin og allir hafa þessir staðir náð að byggjast upp aftur. Með rétt hugarfar í farteskinu sé ég ekkert annað en Grindavík byggist upp aftur, ekki nema eitthvað annað stórt áfall ríði yfir en ég hef ekki trú á að það gerist á næstunni. Auðvitað er maður með bak við eyrað á sér hvernig síðasta svona skeið var fyrir 800 árum en ætli ég sé ekki bara svo mikill Grindvíkingur að ég næ að horfa fram hjá því,“ sagði Hrannar að lokum.

Helgi Rafn, bróðir Hrannars er hér við húsið sitt við Vesturóp eftir jarðskjálftana í nóvember. Stór sprunga hafði opnast meðfram og undir húsinu.
Hið hörmulega slys varð síðan í byrjun janúar að starfsmaður verktaka féll ofan í sprungu við endann á húsinu. Leit að honum bar ekki árangur.